Tuesday, August 11, 2015

Endurkoma lata bloggarans

Mér brá heldur betur í brún þegar ég loggaði mig inn hérna um daginn og sá að ekkert hefur verið skrifað síðan í april! Margt hefur gengið á undanfarna 3 -4 mánuði og miklar breytingar hafa orðið. Ég held að ég hafi bara þurft smá pásu, ásamt því að mér fannst ég ekki hafa um neitt að skrifa. 

Sumarið hefur verið gott hingað til, eyddi viku á Spáni í byrjun sumars, flutti til nýs lands þar sem ég er loksins að finna fótfestu, læra tungumálið og eignast vini. Það er mikið af góðu og skemmtilegu fólki hérna sem gerir lífið svo sannarlega skemmtilegra. Ekki skemmdi fyrir að ég fékk að koma heim til Íslands í stutt stopp og fá smjörþefinn af íslensku sumri. 

En sumarið er ekki búið enn og ég vonast til þess að eiga mörg fleiri ævintýri áður en hitastigið fer lækkandi. Hins vegar er ég mjög spennt fyrir haustinu eftir mjög heitt sumar hér í Sviss og  hlakka til þess að fá að klæða mig fyrir uppáhaldsárstíðina mína. Það verður svolítið skrýtið að vera ekki að fara að setjast á skólabekk í fyrsta skipti í nánast 5 ár. 
En það hlýtur nú að venjast. 
Hér koma nokkrar myndir frá sumrinu hingað til ...



Ljúfa lífið á Spáni í góðum félagsskap, mikið var nú gott að komast í sól og hita eftir ömurlegan vetur á Íslandi.



Þar sem ég var fjarri góðu gamni á útskriftardaginn minn, bætti ég upp fyrir það með að fá mér gott kaffi.....



...og candyfloss, auðvitað!




Heimatilbúinn kínverskur hot pot sem vinkona okkar eldaði fyrir okkur, mjög gott en örlítið sterkara en ég á að venjast. Við erum mjög heppin að hafa kynnst svona yndislegu fólki frá öllum heimshornum sem elda fyrir okkur svona góðan mat frá sínu landi, hef smakkað allskonar mat sem er gjörsamlega ólíkur því sem fæst á veitingastað. Dásamlegt! 



Fallegur dagur við vatnið í Montreux. Við fórum þangað á síðasta degi jazz hátíðarinnar og skemmtum okkur konunglega. Ég er ekki frá því að þetta sé einn af uppáhalds stöðum mínum í Sviss enn sem komið er og get ekki beðið eftir að heimsækja aftur (ekki skemmr fyrir að þar er bæði að finna Zöru og H&M) 



Kom heim til Íslands yfir helgi fyrir brúðkaup frænda míns (og komst að því að 14 tíma ferðalag hvora leið er ekkert grín!), sem var kærkomið helgarfrí. Auðvitað gat ég ekki látið KRÁS götumatarmarkaðinn fram hjá mér fara og fékk þessa ljúffengu Brownie köku og mjólk frá Omnom, meðal annars...

Jæja líklega nóg komið í bili 

Þangað til næst 

X
-A 


No comments:

Post a Comment