Sunday, June 23, 2013

Last night

Datt inn á þessa mynd í sjónvarpinu fyrir svolitlu síðan. Var mjög spennt að sjá Keiru Knightley í einu aðalhlutverkanna en hún er í miklu uppáhaldi hjá mér. 
  Svo var nú heldur ekki slæmt að sjá  Guillaume Canet líka, en hann er mikið augnayndi (crush alert).
Myndin fjallar um ung hjón sem eru aðskilin  eina kvöldstund. Maðurinn á ferðalagi vegna vinnu með mjög svo aðlaðandi samstarfskonu sinni á meðan Joanne, eiginkona hans er heima. Joanne ( Keira) rekst fyrir tilviljun á gamla ást og eyðir hún kvöldinu með honum. Þetta kvöld reynir á hjónabandið og fáum við að fylgjast með og sjá hvort þeim tekst báðum að halda tryggð við maka sinn....





Mér þykir þetta mjög áhugaverð mynd og hér sést skýrt hversu skelfilega auðvelt það getur verið að falla fyrir freistingum þegar þær birtast og hvernig þær geta skerpt á erfiðleikum sem til staðar eru i sambandi. Mjög flott mynd og mæli ég hiklaust með henni 


-R



Sunday, May 12, 2013

Móðurást



Hæhæ, 

Þar sem ég gefið það út að þetta blogg sé tileinkað því að heiðra ástina í öllum sínum myndum finnst mér dagurinn í dag, mæðradagur tilvalinn til þess að heiðra eina mikilvægustu tegund ástar sem til er. Móðurástina.  Ég held að móðurást er eitthvað sem maður á erfitt með að skilja fyrr en maður hefur upplifað hana sjálfur, gagnvart eigin barni. En ég er óendanlega þakklát fyrir móður mína, sem gerir allt fyrir mig - jafnvel þegar ég á það ekki skilið. Myndbandið hér að neðan er vel við hæfi á þessum fallega degi. 



"Mothers hold their children´s hands for a short while, but their hearts forever"
~ Unknown



Hafið það gott

-R

Tuesday, May 7, 2013

Söngtextar sem pickuplínur?


Hæhæ, 
Kvikmyndagerðarmaðurinn Tommy Wooldridge er að eigin sögn "romantically challenged". 
 Í myndbandaröð sem kallast Lyric lines á Vevo síðu Youtube leggur hann upp í ævintýri þar sem hann kannar hvort það gangi betur fyrir hann að ná athygli kvenna með því að notast við texta eftir þekkta  tónlistarmenn sem pick up línur. Útkoman er frekar fyndin......



Endilega tékkið á þessu, 

Hafið það gott 

-R





Friday, May 3, 2013

Ástin er fyrir alla - mynband


Hæhæ 

Eins og fram hefur komið hér áður er ást mitt aðaláhugamál. Að velta fyrir mér ástinni og hvernig hún birtist okkur dagsdaglega.  Ást í öllum myndum. Því ást er jákvæður, fallegur hlutur og honum ber að fagna. Ég fann þetta myndband í gegnum fréttasíðuna Upworthy. Felldi nokkur tár yfir þessu. Ástin er svo sannarlega yndisleg.




Ég hafði hugsað mér að hafa þessa síðu aðallega uppbyggða af greinum og smásögum, en það verður að bíða til sumars, eða allavega betri tíma þar sem ég hef mörgum öðrum skyldum að gegna þessa dagana. 

Hafið það gott kæru lesendur 

-R




Wednesday, April 24, 2013

Ástin hans Tan Hong Ming



Það er ekki mikið um að vera hérna þessa dagana, þar sem ég er á fullu í prófalestri. Tók mér smá pásu frá lestri í síðustu viku og rakst á þetta yndislega mynband, sem er vafalaust eitt það sætasta sem ég hef séð í langan tíma.  
Tan Hong Ming er ástfanginn. Hér spjallar hann  um stelpuna sem hann er ástfanginn af , fylgist rosalega vel við svipbrigðum hans þegar hún svo birtist. Algjörlega ómetanlegt!
 Svo yndislegt að vera ungur og saklaus. 
Það er ómögulegt að brosa ekki yfir þessu. Ég sveif um á bleiku skýi það sem eftir lifði dags eftir að hafa séð þetta. 




Hafið það gott, 


-Reykjavíkurdaman 


Monday, April 15, 2013

Til gamans: Umvafin ást


Í fyrstu Sex and the city myndinni ber persónan Louise lyklakippu með áletruninni LOVE, eða ást.  Aðspurð segir hún að með þessu móti taki hún ástina með sér hvert sem hún fer. 
Mér líkar þessi hugsanagangur og fór því að velta fyrir mér - ef maður klæðist fötum með áletrun ástar, hjörtum eða því um líku er maður þá ekki á sinn hátt umvafin/n ást? 
Hér eru nokkrar einstaklega "ástúðlegar" flíkur.....




Þessi fallegi bolur fæst hér  
 og  er vel til fallinn til  að minna á það hvað skiptir máli 


Þessir yndislegu lokkar fást hér 




Ástarelixírinn fæst hér

 Með þessum  sér maður heiminn í bleikum ljóma. Sólgleraugun fást hér




Þessi fæst hér  og er ofarlega á óskalista hjá mér. Ég er mikill aðdáandi Shakespeare og
tilvitnunin í Romeo og Juliet fær plús í kladdann hjá mér. 




  Þessi fallegu armbönd fást hér , ef þú vilt  bera ástina með þér hvert sem þú ferð, 
eða þá geturðu fengið lyklakippuna hennar Lousie .....





......hér  






Hafið það gott 








Friday, April 12, 2013

Hamingja







Hamingjan er eitt það mikilvægasta sem við eigum og upplifum í lífinu.
Það er sama hvað þú átt og hversu mikið þú átt af því, fallegt hús, falleg föt , peningar. Ef þú hefur ekki hamingjuna hefur þú lítið. 
Eins og allir hlutir sem vert er að eiga eða upplifa er vegferðin að hamingjunni ekki auðveld. Hamingjan er viðkvæmt blóm sem þarfnast réttrar meðhöndlunar til að geta blómstað og dafnað.

Að öðlast hamingju er líflangt verkefni, verkefni sem við munum þurfa að takast á við hverja einustu mínútu, á hverjum einasta degi, alla daga þar til við kveðjum þennan heim.
Ég trúi því að  það að vera hamingjusamur einstaklingur er og þarf að vera meðvituð ákvörðun hjá hverjum og einum, sama hvort maður leitast eftir hamingjunni í örmum annars eða í sínu eigin hjarta. 

Orðin á myndinni hér að ofan er eitthvað sem ég reyni eftir fremsta megni að tileinka mér í lífinu dags daglega og hafa þau reynst mér mikil hjálp þegar allt virðist vonlaust.
Ég reyni  eins og ég get að finna hamingju í smáatriðunum og hversdaglegum hlutum, sama  hversu lítilvæg þau kunna að virðast öðrum. Því rétt eins og við erum öll frábrugðin hvort öðru á þessari jörð eru hlutirnir og manneskjurnar sem færa okkur hamingju það líka.

Í staðinn fyrir að bíða eftir því að eitthvað mikilfenglegt og stórkostlegt muni gerast          (og verða svo fyrir vonbrigðum þegar ekkert gerist) ættum við sjálf að leita uppi hamingjuna. Að læra að finna eitthvað jákvætt, sama hversu lítið það er og sama í hvaða aðstæðum við lendum í.

Til þess að hjálpa sjálfri mér í leit minni að hamingju og vonandi veita ykkur innblástur til að gera slíkt hið sama,  mun ég reglulega deila með ykkur litlu, hversdagslegu hlutunum sem færa mér hamingju í lífinu. Þetta er fyrsta færslan og hér er það sem veitir mér hamingju þessa dagana......





1. Að skrifa     

Ekkert í þessum heimi færir mér eins mikla hamingju og von á erfiðum tímum og að skrifa. Að geta komið hugsunum mínum og tillfininningum niður á blað og út úr kollinum á mér veitir mér svo mikla sálarró. Sérstaklega þar sem ég er týpan sem á það til að ofhugsa hlutina, en um leið og penninn snertir blaðið ( á ég er gamaldags, mér þykir best að skrifa með penna á blað) er eins og allt þurrkist út, eða verði allavega auðveldara að eiga við. 


2. Rauður varalitur 

Stundum finnst mér eins og rauður varalitur sé töfrum gæddur. Sama hvaða aðstæðum ég er í, hvort sem ég þarf á  smá auka kjark að halda,þarf að peppa mig upp eða vil bara vera fín þá kemur rauði varaliturinn mér til bjargar. 


3. Fyrstu vordagarnir 

Fyrstu vordagar ársins veit mér svo mikla von og gleði, allt virðist auðveldara, andrúmsloftin virðist fyllast af gleði og  fólk virðist almennt mun léttara á brún. Ekki sakar að loksins er hægt  að draga fram sólgleraugun og léttari yfirhafnir. Daginn að lengja og yndislegasti tími ársins er framundan: Íslenska sumarið. 


4. Karamellute

Þegar ég var lítil  og borðaði morgunverð með ömmu minni drukkum við alltaf karamellute saman. Fyrir mér er karamellute eins og faðmlag í bolla. Það minnir mig á dýrmætar barnæskuminningar. 

5. Hvolpar 

Fann þetta  myndband í gegnum norska bloggið Hjartesmil
Hvolpar eru svo yndislegir gleðigjafar!




Hafið það gott 








-

Thursday, April 11, 2013

Paperman




Hæhæ 

Mig langaði að deila þessari yndislega fallegu stuttmynd með ykkur. Stuttmyndin Paperman vann til Óskarsverðlauna í febrúar síðastliðnum sem besta teiknaða stuttmyndin ( best animated short). Svo ótrúlega krúttleg og skemmtileg. 
Ef þið hafið ekki séð hana mæli ég með því að þið gerið það NÚNA!







Hafið það gott 



Wednesday, April 10, 2013

Finndu þitt.....




Þar sem þetta blogg á að fjalla um ástina fyrst og fremst fannst mér tilvalið að deila þessu með ykkur. Hér fyrir neðan eru 3 af mínum uppáhaldsauglýsingum úr auglýsingarherferð sem  vefsíðan Expedia gerði fyrir svolitlu síðan. Auglýsingaherferðin hefur yfirskriftina Find yours, eða finndu þitt. Sett var að stað samkeppni þar sem þáttakendur gátu sent inn myndbönd sem hefðu sömu yfirskrift. Vinningsmyndböndum fengu svo að vera hluti af auglýsingaherferðinni.  Ég hef séð öll myndböndin og þykir þau virkilega falleg. Ástin er í aðalhlutverki, í hinum ýmsu birtingamyndum og sögurnar grípandi. Virkilega til þess að hlýja manni um hjartarætur á þessum fallega degi.




Þetta myndband heitir Find your goodbye og þar í aðalhlutverki er  bræðrakærleikur og missir


                   



Find your strength  segir sögu ungrar konu sem átti við alvarleg veikindi í æsku og styrkinn og ástina sem hún fann í vini sínum. 


                             



Find yours: Home is wherever I´m with you  Virkilega krúttlegt og svolítið kómískt myndband þar sem tveir mismunandi menningarheimar mætast. 


                                                                          



Ástin er alls staðar og birtist okkur í mörgum mismunandi myndum. 
Við þurfum bara að hafa augun opin 

Hafið það gott 


Tuesday, April 9, 2013

Eitraðir karlmenn - 8 týpur sem ber að varast



                               



Eftir að hafa verið á lausu í Reykjavík í rúm tvö ár hef ég rekið mig á ýmsar mis skemmtilegar týpur af karlmönnum. Það virðist því miður vera af nógu að taka í okkar annars fögru borg, en þessar týpur eiga það allar sameiginlegt að vera líklegar til þess að hafa neikvæð áhrif á þig og líf þitt. Hafðu varann á.


    Vinnualkinn


    Hann velur vinnuna fram yfir þig og er alltaf upptekinn. Þessi týpa mun líklega hafa áhrif á sjálfsöryggi þitt ef þú ert í návist hans til langs tíma. Hann kann ekki að meta þig, eða er mjög lélegur í að sýna það. Ef hann hefur ekki tíma fyrir þig, hefur þú ekki tíma fyrir hann. Einfalt.

    Lati gaurinn 
    Líklegt er að hann hafi engar, eða litlar framtíðarhorfur. Hann hefur ekki mikið af markmiðum, ef hann hefur þau er hann ekki að gera mikið til þess að uppfylla þau og ekki er líklegt að það muni breytast í nánustu framtíð.Hann hefur sína drauma (eins og allir) en hefur ekki hugrekki né nennu til þess að láta þá rætast. Það vantar allan drifkraft í þennan mann. Framtíðin hræðir hann eða þá að hann nennir ekki að pæla í henni. Ef þið eruð ekki nokkurn veginn samstíga í sambandi við metnað og framtíðarsýn býður það ekki  upp á heilbrigt samband til langs tíma.

    Mömmudrengurinn 
    Hann elskar móður sína umfram alla aðra og hún hefur sterk ítök í lífi hans. Það getur verið gæðamerki að karlmaður hafi gott samband við móður sína, en ef hún hefur svo mikil völd í lífi hans að það komi niður á ykkar sambandi er það ekki gott.
    Hann hlustar og hlýðir móður sinni í einu og öllu, þrátt fyrir það að vera fullorðinn karlmaður. Þú munt líklega aldrei komast með tærnar þar sem móðir hans hefur hælana. Einnig getur verið að hann muni ætlast til þess að þú hugsir um hann eins og móðir hans gerir. Þú vilt deita hann, ekki ala hann upp.  Þetta mun vera flókið samband og það er undir þér komið að ákveða hvort það komi til með að vera þess virði.

    Fullkomnunarsinninn 
    Sá sem er með allt lífið skipulagt niður í minnstu smáatriði. Hann er líklega með 5 ára plan, jafnvel 10 ára plan. Allt þarf að vera fullkomið, þar með talið þú og hann er með ákveðin plön um hvaða stefnu ykkar samband skal taka. Hann á það til að vera svo upptekinn að plana að hann gleynir að lifa og vera til staðar í núinu. Hann á líklega erfitt með að takast á við breytingar og ef þið eruð mjög ólík að persónugerð mun það líklega valda vandamálum í sambandinu.

    Sá sem setur þig á stall
    Líkist að nokkru leyti fullkomnunarsinnanum. Hann hefur ákveðnar hugmyndir um þig, hver og hvernig þú ert. Líklegt er að hann sé meira spenntur fyrir ímyndinni af þér sem hann er búinn að byggja upp í hausnum á sér heldur en þér sjálfri. Þegar fullkomna ímyndin hans af þér stenst ekki raunveruleikann er líklegt að þið munið bæði enda í sárum. 

    Brotni gaurinn/ tilfinningaflækju gaurinn 
    Sá sem er "með hausinn í messi" , " ekki tilbúinn að díla við þetta" (eða ein af öllum hinum endalausu afsökunum sem fyrirfinnast). Í stuttu máli maðurinn sem er ekki viss um tilfinningar sínar í þinn garð og mun líklega aldrei vera það. Ástarsamband með þessari týpu mun líklega þýða endalaus vonbrigði og hjartasár. Samband með honum mun vera mjög óstöðugt og leiðir ekki til neins. Sparaðu þér tilfinningarússíbanann og gerðu sjálfri þér greiða: Láttu þennan eiga sig. 

    "Góði gaurinn"
    Ef karlmaður þarf að lýsa því yfir að hann sé góður og eyðir miklum tíma í að segja þér frá því hversu frábær hann er, þá er hann líklega ekki góði gaurinn. Karlmaður sem í raun og veru er góði gaurinn þarf ekki að lýsa því yfir að hann sé góður gaur. Hann sýnir það í verki.

    Sá sem vill bara kærustu 
    Ætti að vera nokkuð gleðiefni að hafa loksins hitt á karlmann sem er tilbúin í samband ekki satt? Rangt. Þessi týpa vill ekki vera með þér vegna þess hversu yndisleg, góð, gáfuð og falleg þú ert. Þessi einstaklingur er líklega farinn að nálgast þrítugsaldurinn og farinn að finna fyrir pressu frá fjölskyldu, samfélaginu og sínu nærumhverfi um að finna sér einhverja til þess að vera með.
    Því skiptir hann mestu máli að finna sér samband, ekki manneskjan sem hann er í sambandi með. Þetta samband er ekki líklegt til að verða langlíft og mun ekki hafa góð áhrif á þig.




    -Reykjavíkurdaman

    Monday, April 8, 2013

    Beðmál í borginni


    Ég hef verið aðdáandi Sex and City þáttanna eins lengi og ég man eftir.
     Ég hef nánast horft á alla þættina sem til eru aftur á bak og áfram ( ásamt því að hafa séð báðar myndirnar) . Mér hefur alltaf þótt einstaklega gaman að fylgjast með spennandi lífi Carrie Bradshaw og vinkvenna hennar í borginni sem aldrei sefur. Hvernig þær standa saman í gegnum súrt og sætt og takast á við gleði og sorgir í ástarmálum og lífinu almennt.
    Hingað til hafa þessir þættir verið minn leiðarvísir í gegnum það völundarhús sem stefnumótaheimurinn er og þetta ruglandi millibilsástand sem tvítugsaldurinn er. Þú ert ekki lengur unglingur en ekki heldur alveg fullorðin/n. Maður glímir við vandamál með sjálfsmyndina, breytt hlutverk í heiminum og  sambönd meðal annars.

    Sambönd geta verið svo óendanlega flókin. Þau geta verið yndisleg og  þau geta valdið manni vonbrigðum og hjartasári. Á þessum árum er eins og allir séu svolítið týndir, bæði karlmenn og konur. Þetta er tíminn sem flestir eru svolítið að reyna að finna sig. Hvar þeir tilheyra og passa inn í þessum heimi. Því hef ég komist að því að eitt af  mikilvægustu samböndin sem þú átt á þessum aldri er við sjálfa þig. 




     Þess vegna er tvítugsaldurinn akkurat tíminn til að leika lausum hala, tíminn til þess að vera svolítið eigingjarn og setja þarfir sínar og drauma framar þörfum annarra. Þetta er tíminn til að uppfylla drauma sína, kynnast sjálfri sér betur og styrkja sjálfa sig. Þetta er mögulega eini tíminn í lífi þínu sem þú munt hafa þann lúxus að geta hugsað fyrst og fremst um sjálfa þig. Svo er líka yndislegt að geta nýtt tíma sínn í að vera með vinkonum sínum og rækta sambandið við þær. Þetta eru manneskjurnar í lífi þínu sem þú veist að munu alltaf standa við bakið á þér. Það er mér óendanlega dýrmætt að geta nýtt tíma minn á nákvæmlega þann hátt sem ég vil, því ég veit að þetta verður ekki svona að eilífu. Með aldrinum færist ábyrgðin yfir mann í auknum mæli og það er margt sem bera þarf á herðum sér og margar fórnir að færa. 

    Í fyrsta skipti sem ég sá Sex and the city var ég unglingur. Ég hafði aldrei átt kærasta  og hafði yfir höfuð ekki mikla reynslu af samskiptum við hitt kynið, svo ég gat illa samsamað mig upplifun persónanna í þáttunum.  Með árunum (og nokkrum misvellukkuðum ástarsamböndum) hef ég öðlast meiri og betri skilning.  
    Ég, rétt eins Carrie er að leita að ást. Hinni stóru ást. Ég vil upplifa augnablikið þar sem lífið eins og þú þekkir það breytist að eilífu. Þegar þú finnur þennan einstakling sem passar þér, sem elskar þig sama hvað.

    Það virðist þrautinni þyngri í nútímanum, eins og stefnumótaheimurinn er hér á Íslandi. En það er allt í lagi, ég er ekkert að flýta mér. Einhvern daginn, þegar ég verð tilbúin (og þegar ég hitti á réttann aðila) mun ástin finna mig, eða ég hann. Þangað til er ég fullkomnlega hamingjusöm að lifa mínu einhleypa, (tiltölulega) áhyggjulausa lífi, rétt eins og Carrie Bradshaw. Enda er ekki leiðum að líkjast. 








    Reykjavíkurdaman

    Wednesday, March 6, 2013

    Paloma Faith


    Hin breska Paloma Faith er í miklu uppáhaldi hjá mér. Hún semur yndisleg ástarlög og er með mjög skemmtilega og sterka  rödd.  Hér eru tvö uppáhalds með henni: 






    Hafið það gott!



    Monday, February 25, 2013

    Intro

    Reykjavíkurástir eru hugleiðingar Reykjavíkurdömu  um ástina, stefnumótalífið í Reykjavík og allt sem hefur að gera með ástina og sambönd. Rithöfundur bloggsins er mikil áhugamanneskja um ást og allt sem henni við kemur. Hér verða málefni ástarinnar krufin til mergjar. Ég býst við því að það sé ekki mikið eftir að gera nema byrja!




    xxx
    - Reykjavíkurdaman