Monday, April 8, 2013

Beðmál í borginni


Ég hef verið aðdáandi Sex and City þáttanna eins lengi og ég man eftir.
 Ég hef nánast horft á alla þættina sem til eru aftur á bak og áfram ( ásamt því að hafa séð báðar myndirnar) . Mér hefur alltaf þótt einstaklega gaman að fylgjast með spennandi lífi Carrie Bradshaw og vinkvenna hennar í borginni sem aldrei sefur. Hvernig þær standa saman í gegnum súrt og sætt og takast á við gleði og sorgir í ástarmálum og lífinu almennt.
Hingað til hafa þessir þættir verið minn leiðarvísir í gegnum það völundarhús sem stefnumótaheimurinn er og þetta ruglandi millibilsástand sem tvítugsaldurinn er. Þú ert ekki lengur unglingur en ekki heldur alveg fullorðin/n. Maður glímir við vandamál með sjálfsmyndina, breytt hlutverk í heiminum og  sambönd meðal annars.

Sambönd geta verið svo óendanlega flókin. Þau geta verið yndisleg og  þau geta valdið manni vonbrigðum og hjartasári. Á þessum árum er eins og allir séu svolítið týndir, bæði karlmenn og konur. Þetta er tíminn sem flestir eru svolítið að reyna að finna sig. Hvar þeir tilheyra og passa inn í þessum heimi. Því hef ég komist að því að eitt af  mikilvægustu samböndin sem þú átt á þessum aldri er við sjálfa þig. 




 Þess vegna er tvítugsaldurinn akkurat tíminn til að leika lausum hala, tíminn til þess að vera svolítið eigingjarn og setja þarfir sínar og drauma framar þörfum annarra. Þetta er tíminn til að uppfylla drauma sína, kynnast sjálfri sér betur og styrkja sjálfa sig. Þetta er mögulega eini tíminn í lífi þínu sem þú munt hafa þann lúxus að geta hugsað fyrst og fremst um sjálfa þig. Svo er líka yndislegt að geta nýtt tíma sínn í að vera með vinkonum sínum og rækta sambandið við þær. Þetta eru manneskjurnar í lífi þínu sem þú veist að munu alltaf standa við bakið á þér. Það er mér óendanlega dýrmætt að geta nýtt tíma minn á nákvæmlega þann hátt sem ég vil, því ég veit að þetta verður ekki svona að eilífu. Með aldrinum færist ábyrgðin yfir mann í auknum mæli og það er margt sem bera þarf á herðum sér og margar fórnir að færa. 

Í fyrsta skipti sem ég sá Sex and the city var ég unglingur. Ég hafði aldrei átt kærasta  og hafði yfir höfuð ekki mikla reynslu af samskiptum við hitt kynið, svo ég gat illa samsamað mig upplifun persónanna í þáttunum.  Með árunum (og nokkrum misvellukkuðum ástarsamböndum) hef ég öðlast meiri og betri skilning.  
Ég, rétt eins Carrie er að leita að ást. Hinni stóru ást. Ég vil upplifa augnablikið þar sem lífið eins og þú þekkir það breytist að eilífu. Þegar þú finnur þennan einstakling sem passar þér, sem elskar þig sama hvað.

Það virðist þrautinni þyngri í nútímanum, eins og stefnumótaheimurinn er hér á Íslandi. En það er allt í lagi, ég er ekkert að flýta mér. Einhvern daginn, þegar ég verð tilbúin (og þegar ég hitti á réttann aðila) mun ástin finna mig, eða ég hann. Þangað til er ég fullkomnlega hamingjusöm að lifa mínu einhleypa, (tiltölulega) áhyggjulausa lífi, rétt eins og Carrie Bradshaw. Enda er ekki leiðum að líkjast. 








Reykjavíkurdaman

No comments:

Post a Comment