Undanfarna mánuði hef ég haft aðeins meiri frítíma en ég á að venjast þar sem ég er enn að leita mér að vinnu hér úti. Áður en ég flutti út var ég í 38 einingum í háskóla og yfir 50% vinnu svo það var ekki mikið um neitt sem heitir frítími eða áhugamál.
Þessa dagana er allt annar rytmi á lífi mínu hér og þó svo margir segi að atvinnuleit sé full vinna þá er nú samt sem áður ansi mikill tími aflögu þegar búið er að sækja um vinnur.
Því hefur hugurinn leitað aftur í áhugamál, hver mín eiginlega séu?
Eitt áhugamál sem hefur verið viðvarandi, meira að segja þegar ég hef ekki haft tíma til að sinna því er bakstur og matargerð. Sem lærður bakari er hálfgerð skömm í því að ég hef varla bakað neitt af viti frá því í vor.
Ég ætla mér að bæta úr því og hér eru nokkrar uppskriftir sem mig langar að prófa til þess að koma mér af stað
1. Espresso créme brulée
Ég datt inn á vefsíðuna hennar Mörthu Stewart um daginn og er búin að liggja yfir henni tímunum saman að skoða alls konar girnilegar uppskriftir og var þessi efst á lista hjá mér til að prófa. Créme Brulée er og hefur alltaf verið uppáhalds eftirrétturinn minn og allir þeir sem þekkja mig vita að ég elska kaffi meira en allt annað (hef reyndar ekki drukkið mikið kaffi upp á síðkastið en það er annað mál). Ég verð að prófa þetta við fyrsta tækifæri
Mynd: Martha Stewart Living
2. Natas - Portúgalskar tartalettur
Þessar eru mikið í uppáhaldi, hef fengið þær þónokkuð oft en aldrei gert þær sjálf.Eftirminnilegast var á portúgölskum veitingastað í Brussel þar sem þær voru bornar fram með litlu glasi af púrtvíni. Mig hefur alltaf langað að prófa að gera þær sjálf enda er þetta eitthvað sem væri dásamlegt að bera fram fyrir morgunverð eða brunch, en samt kannski án púrtvínsins. Ég fann þessa uppskrift hér
Mynd: BBC Good Food
3. Skúffukaka
Það sem er skrýtið þegar maður býr erlendis er að maður fer að sakna matvæla og rétta sem voru kannski ekki einu sinni á boðstólum reglulega heima fyrir. Akkurat núna gæti ég drepið fyrir skúffuköku með glassúr og kókos, en samt sem áður var þetta eitthvað sem ég borðaði örsjaldan þegar ég var á Íslandi. Mig langar mikið að prófa þessa uppskrift frá Ljúfmeti og lekkerheit
Mynd: Ljúfmeti og lekkerheit
4. Éclairs
Ég man eftir að hafa séð þessar litríku fallegu kökur í búðargluggum og bakaríum þegar ég við fjölskyldan eyddum tíma í Frakklandi og mér þótti svo gaman að skoða öll litríku sætabrauðin. Ég hallast reyndar frekar að því að makkarónur séu meira uppáhalds í dag en mér þætti gaman að prófa að búa til Éclairs. Uppskriftina fann ég á vefsíðu BBC Good Food
Mynd: BBC Good Food
5.Peanut butter tart
Þar sem ég elska allt sem inniheldur hnetusmjör og hnetusmjör út af fyrir sig ennþá meira þá gat ég ekki sleppt því að hafa þessa á "to -do" listanum. Hnetusmjörsterta, er hægt að biðja um meira?
Mynd: Martha Stewart
Læt þetta duga í bili þó svo það séu margar fleiri uppskriftir sem mig langar að prófa
Þangað til næst
X
-A
English recap: A couple of sweet recipes that I want to try.