Friday, August 14, 2015

Uppskriftir sem mig langar að prófa


Undanfarna mánuði hef ég haft aðeins meiri frítíma en ég á að venjast þar sem ég er enn að leita mér að vinnu hér úti. Áður en ég flutti út var ég í 38 einingum í háskóla og yfir 50% vinnu svo það var ekki mikið um neitt sem heitir frítími eða áhugamál.
Þessa dagana er allt annar rytmi á lífi mínu hér og þó svo margir segi að atvinnuleit sé full vinna þá er nú samt sem áður ansi mikill tími aflögu þegar búið er að sækja um vinnur. 
Því hefur hugurinn leitað aftur í áhugamál, hver mín eiginlega séu? 
Eitt áhugamál sem hefur verið viðvarandi, meira að segja þegar ég hef ekki haft tíma til að sinna því er bakstur og matargerð.  Sem lærður bakari er hálfgerð skömm í því að ég hef varla bakað neitt af viti frá því í vor. 
Ég ætla mér að bæta úr því og hér eru nokkrar uppskriftir sem mig langar að prófa til þess að koma mér af stað 




1. Espresso créme brulée

Ég datt inn á vefsíðuna hennar Mörthu Stewart um daginn og er búin að liggja yfir henni tímunum saman að skoða alls konar girnilegar uppskriftir og var þessi efst á lista hjá mér til að prófa. Créme Brulée er og hefur alltaf verið uppáhalds eftirrétturinn minn og allir þeir sem þekkja mig vita að ég elska kaffi meira en allt annað (hef reyndar ekki drukkið mikið kaffi upp á síðkastið en það er annað mál). Ég verð að prófa þetta við fyrsta tækifæri 

No-Bake Espresso Cremes Brulees





2. Natas - Portúgalskar tartalettur

Þessar eru mikið í uppáhaldi, hef fengið þær þónokkuð oft en aldrei gert þær sjálf.Eftirminnilegast var á portúgölskum veitingastað í Brussel þar sem þær voru bornar fram með litlu glasi af púrtvíni. Mig hefur alltaf langað að prófa að gera þær sjálf enda er þetta eitthvað sem væri dásamlegt að bera fram fyrir morgunverð eða brunch, en samt kannski án púrtvínsins. Ég fann þessa uppskrift hér

Portuguese egg custard tarts
Mynd: BBC Good Food



3. Skúffukaka

Það sem er skrýtið þegar maður býr erlendis er að maður fer að sakna matvæla og rétta sem voru kannski ekki einu sinni á boðstólum reglulega heima fyrir. Akkurat núna gæti ég drepið fyrir skúffuköku með glassúr og kókos, en samt sem áður var þetta eitthvað sem ég borðaði örsjaldan þegar ég var á Íslandi.  Mig langar mikið að prófa þessa uppskrift frá Ljúfmeti og lekkerheit 


Mynd: Ljúfmeti og lekkerheit



4. Éclairs

Ég man eftir að hafa séð þessar litríku fallegu kökur í búðargluggum og bakaríum þegar ég við fjölskyldan eyddum tíma í Frakklandi og mér þótti svo gaman að skoða öll litríku sætabrauðin. Ég hallast reyndar frekar að því að makkarónur séu meira uppáhalds í dag en mér þætti gaman að prófa að búa til Éclairs. Uppskriftina fann ég á vefsíðu BBC Good Food

Mini eclairs
Mynd: BBC Good Food




5.Peanut butter tart 

Þar sem ég elska allt sem inniheldur hnetusmjör og hnetusmjör út af fyrir sig ennþá meira þá gat ég ekki sleppt því að hafa þessa á "to -do" listanum. Hnetusmjörsterta, er hægt að biðja um meira? 

Peanut Butter Tart
Mynd: Martha Stewart 



Læt þetta duga í bili þó svo það séu margar fleiri uppskriftir sem mig langar að prófa 

Þangað til næst 

X

-A


English recap: A couple of sweet recipes that I want to try. 


Tuesday, August 11, 2015

Follow my blog with Bloglovin

Endurkoma lata bloggarans

Mér brá heldur betur í brún þegar ég loggaði mig inn hérna um daginn og sá að ekkert hefur verið skrifað síðan í april! Margt hefur gengið á undanfarna 3 -4 mánuði og miklar breytingar hafa orðið. Ég held að ég hafi bara þurft smá pásu, ásamt því að mér fannst ég ekki hafa um neitt að skrifa. 

Sumarið hefur verið gott hingað til, eyddi viku á Spáni í byrjun sumars, flutti til nýs lands þar sem ég er loksins að finna fótfestu, læra tungumálið og eignast vini. Það er mikið af góðu og skemmtilegu fólki hérna sem gerir lífið svo sannarlega skemmtilegra. Ekki skemmdi fyrir að ég fékk að koma heim til Íslands í stutt stopp og fá smjörþefinn af íslensku sumri. 

En sumarið er ekki búið enn og ég vonast til þess að eiga mörg fleiri ævintýri áður en hitastigið fer lækkandi. Hins vegar er ég mjög spennt fyrir haustinu eftir mjög heitt sumar hér í Sviss og  hlakka til þess að fá að klæða mig fyrir uppáhaldsárstíðina mína. Það verður svolítið skrýtið að vera ekki að fara að setjast á skólabekk í fyrsta skipti í nánast 5 ár. 
En það hlýtur nú að venjast. 
Hér koma nokkrar myndir frá sumrinu hingað til ...



Ljúfa lífið á Spáni í góðum félagsskap, mikið var nú gott að komast í sól og hita eftir ömurlegan vetur á Íslandi.



Þar sem ég var fjarri góðu gamni á útskriftardaginn minn, bætti ég upp fyrir það með að fá mér gott kaffi.....



...og candyfloss, auðvitað!




Heimatilbúinn kínverskur hot pot sem vinkona okkar eldaði fyrir okkur, mjög gott en örlítið sterkara en ég á að venjast. Við erum mjög heppin að hafa kynnst svona yndislegu fólki frá öllum heimshornum sem elda fyrir okkur svona góðan mat frá sínu landi, hef smakkað allskonar mat sem er gjörsamlega ólíkur því sem fæst á veitingastað. Dásamlegt! 



Fallegur dagur við vatnið í Montreux. Við fórum þangað á síðasta degi jazz hátíðarinnar og skemmtum okkur konunglega. Ég er ekki frá því að þetta sé einn af uppáhalds stöðum mínum í Sviss enn sem komið er og get ekki beðið eftir að heimsækja aftur (ekki skemmr fyrir að þar er bæði að finna Zöru og H&M) 



Kom heim til Íslands yfir helgi fyrir brúðkaup frænda míns (og komst að því að 14 tíma ferðalag hvora leið er ekkert grín!), sem var kærkomið helgarfrí. Auðvitað gat ég ekki látið KRÁS götumatarmarkaðinn fram hjá mér fara og fékk þessa ljúffengu Brownie köku og mjólk frá Omnom, meðal annars...

Jæja líklega nóg komið í bili 

Þangað til næst 

X
-A 


Friday, April 10, 2015

Tónelska: Walk the moon

Vá... það er kominn mánuður frá því ég heimsótti síðast þennan litla kima internetsins sem ég kalla minn. 
Tíminn líður hratt og það er allt of mikið að gera. Því hef ég ekki getað gefið mér eins mikinn tíma og ég vil í að gera það sem mér finnst hvað skemmtilegast: blogga. 

En það er nú minna en mánuður þangað til þessu lýkur öllu saman og ég get gert nákvæmlega það sem mér sýnist.
Það er því lítið annað í stöðunni en að grafa nefið í bækurnar og vinna sig í gegnum lokasprettinn. 
Það sem hjálpar mér mikið í gegnum stress er tónlist og  ég er yfirleitt með tónlist í eyrunum meira eða minna allan daginn hvort sem það er á leiðinni í eða úr skólanum eða þegar ég er að læra. 

Ég nota nánast einungis Spotify til þess að hlusta á tónlist, Það sem ég elska við Spotify er að það er svo auðvelt að uppgötva nýja, skemmtilega tónlist.
Walk the moon er hljómsveit sem ég var að uppgötva í dag. Tónlistin þeirra er mjög hress og skemmtileg. Tónlist sem gleður.  
Lagið þeirra Work this body hefur verið á stöðugri endurspilun hjá mér í dag og ég er ekki frá því að það sé strax orðið uppáhalds. 
Endilega tékkið á þessari skemmtilegu hljómsveit. 





Þangað til næst 

X
-A



Monday, March 9, 2015

Mánudagur


Bestu dagarnir eru yfirleitt þeir þar sem gerast "óvart". Þar sem ekkert sérstakt er planað en spontant ákvarðanir enda á því að gera daginn extra skemmtilegan. 
Þessi mánudagsmorgunn er fullkomið dæmi um þess konar daga.

Systir mín sótti mig til að við gætum verið samferða upp í Háskóla, við ákváðum svo  að fara og fá okkur morgunkaffi í Kaffitár áður. 
Þar rak ég augun í nýja tegund af sætabrauði, ferskjuvínarbrauð. Ef það er ein freisting sem ég stenst ekki þá er það sætabrauð (eins og Instagram prófillinn minn gefur kannski til kynna).
Svo kósý að byrja vikuna á kaffi og spjalli 
Góð byrjun á vonandi enn betri viku! 




A great start to what will hopefully become an even better week! 


XX
-A




Monday, February 23, 2015

The Oscars : uppáhaldskjólarnir mínir og #Askhermore

Það er nú orðið töluvert langt síðan ég setti eitthvað hingað inn og þykir mér það mjög leiðinlegt. Annríki í skóla og vinnu hefur orðið til þess að ég hef ekki getað sinnt mínum áhugamálum og hef ekki skrifað eins mikið og ég vildi að ég gæti. 
Ég var staðráðin í því að horfa á Óskarsverðlaunin í gærkvöldi en sofnaði svo fyrir klukkan tíu í gærkvöldi. Frábært Andrea, Frábært! 

En þess í stað hef ég  eytt morgninum í að leggjast yfir fataval stjarnanna fyrir þennan stærsta atburð ársins í kvikmyndabransanum. 


Keira Knightley  í Valentino 

Mér finnst þessi kjóll rosalega flottur og 
 svolítið öðruvísi með áletrununum á pilsinu. 


Rosamund Pike í Givenchy 

Ég man eftir að hafa fyrst séð Rosamund Pike í  Pride and Prejudice með Keiru Knightley og þykir mér hún mjög skemmtileg leikkona. Kjóllinn hennar fyrir stóra kvöldið  er alveg guðdómlega fallegur! 


Chloé Moretz í Miu Miu 

Mér þykir þessi svolítið skemmtilegur! 
Flottur og unglegur fyrir þessa hæfileikaríku leikkonu 



Emma Stone í Elie Saab 

Miðað við það sem ég hef lesið er þessi að mati margra kjóll kvöldisins og kemur það alls ekki á óvart - algjör prinsessukjóll sem er þó nokkuð nútímalegur og stílhreinn í sniðinu.


En á meðan það getur verið óendanlega gaman fyrir okkur sem aðeins getum fylgst með þessum atburði heima í sófa að spá og spekúlera í kjólum sem flestar okkar munu aldrei hafa efni á að kaupa, er vert að hafa í huga að þessar leikkonur eru meira en fötin sem þær klæðast, þó falleg þau séu. 

Allar þessar stórkostlegu leikkonur sem eru svo ótrúlega hæfileikaríkar og duglegar eiga skilið viðurkenningu fyrir hæfileika sína og afrek, ekki aðeins klæðaburð og útlit. 
Þess vegna var ég mjög spennt fyrir #askhermore herferðinni sem Reese Witherspoon átti þátt í að vekja athygli á í aðdraganda Óskarshátíðarinnar. 



#Askhermore gengur út á að hvetja blaðamenn og fjölmiðlafólk til þess akkurat að spyrja hana meira, spyrja hana að öðru en aðeins útlitstengdum spurningum. Þetta þykir mér frábært framtak. Leikkonur og listamenn sem eru í sviðsljósinu eru oft persónur sem ungar konur taka sér til fyrirmyndar og  því er svo ótrúlega mikilvægt að fleira en klæðaburður stjarnanna fái athygli fjölmiðla. Það sendir sterk skilaboð að útlit sé ekki það eina sem skiptir máli. 

Nú hlakkar mig bara til að fá að horfa á Óskarsathöfnina sjálfa, þó svo það verði degi of seint og sjá hvernig þetta fór allt fram 

Þangað til næst 

XX
-A

Thursday, February 5, 2015

Ferðalag


Þegar þessi færsla fer í loftið verð ég í háloftunum á leiðinni í stutt  en langþráð ferðalag.
Mikið hlakkar mig til að lenda á áfangastað og fá að faðma  uppáhalds manneskjuna mína







Hafið það gott 

XX
-A